Fréttaveita Borgunar

Borgun telur sig hafa framkvæmt áreiðanleikakannanir á viðskiptavinum01.03.2017

Í fréttum hefur komið fram að Fjármálaeftirlitið (FME) hafi vísað máli tengdu Borgun hf. til héraðssaksóknara í tengslum við athugun og síðar athugasemdir við verklag og eftirlit vegna áreiðanleikakannana á erlendum viðskiptavinum. Í framhaldi vill Borgun koma eftirfarandi á framfæri. 

Borgun telur sig hafa framkvæmt áreiðanleikakannanir á viðskiptavinum samkvæmt verklagshefð á Evrópska efnahagssvæðinu þegar sambærileg viðskipti eru annars vegar. FME hefur hins vegar gert athugasemdir við hvernig gagna hefur verið aflað og hvernig áreiðanleiki þeirra hefur verið tryggður. Borgun  tekur athugasemdum FME alvarlega eins og fram kom í yfirlýsingu Borgunar sl. föstudag. Fyrirtækið mun tryggja í samstarfi við FME að starfsemin fullnægi ítrustu skilyrðum laga m.t.t. könnunar á áreiðanleika viðskiptamanna og skyldum þáttum.

Unnið er að innleiðingu þeirra ráðstafana, sem Borgun þarf að grípa til, og stefnt er að því að allri vinnu af hálfu Borgunar til að uppfylla kröfur FME um úrbætur verði lokið innan tveggja mánaða. Rangt er að Borgun hafi ekki framfylgt fyrirmælum FME. Borgun hefur þegar sagt upp öllum viðskiptum sem FME gerði kröfu um að yrði sagt upp. 

Ranglega hefur verið fullyrt að stóraukin umsvif  Borgunar utanlands tengist vafasömum viðskiptum sem önnur kortafyrirtæki vilji ekki sinna. 

Borgun hefur starfað á alþjóðlegum greiðslumiðlunarmarkaði frá því um árið 2000. Viðskiptin hafa vaxið jafnt og þétt á síðustu árum. Fyrir utan hefðbundna smásöluverslun þá vegur enginn einstakur viðskiptaflokkur meira en um það bil 2% af heildarviðskiptum Borgunar. Áhættan af viðskiptaflokkum er mismikil og af mismunandi ástæðum, svo sem endurkröfuáhætta, orðsporsáhætta og uppgjörsáhætta. Borgun uppfyllir öll skilyrði alþjóðlegu kortafélaganna í starfsemi sinni.

Á undanförnum árum hefur Borgun lagt megin áherslu utan Íslands á almenna smásöluverslun í Ungverjalandi, Tékklandi og Bretlandi, auk sérhæfðrar greiðslumiðlunar svo sem sjálfsala og fleira. Borgun þjónar nú þúsundum viðskiptavina á þessum svæðum og u.þ.b. 25 þúsund sjálfsölum í Evrópu.

 

FÁ TILBOÐ Í VIÐSKIPTI

Þessi vefsíða styðst við vafrakökur

Borgun notar vefkökur m.a. til að greina umferð um vefinn og til að bæta upplifun notanda á síðunni. Nánari upplýsingar um vefkökunotkun